mánudagur, janúar 23, 2006

smá hip hop í vikubyrjun

Mér hefur fundist halla dálítið á hip hop á helstu tónlistarbloggsíðum hérlendis. Reyndar var Egill Harðar með nokkur lög frá anticon útgáfunni en annars er lítið fjallað um það nema þá helst að Sage Francis, MF Doom og Edan hafa fengið einhverja umfjöllun. Mér fannst því tilvalið að pósta nokkrum skemmtilegum hip hop lögum sem mér finnst skilið að rati í fleiri eyru.

Fyrst er bræðingur þar sem búið er að splæsa saman Notorious B.I.G. laginu Everyday Struggle saman við A Day In A Life Of A Fool með Frank Sinatra. Þetta er af stórskemmtilegum disk sem heitir Blue Eye Meets Bed Stuy og er með skemmtilegri mashup plötum sem ég hef heyrt. Allavega er þetta lag alveg að svínvirka á mig og ef eitthvað er þá er það betra en báðar upprunalegu útgáfurnar. Hefði óneitanlega verið gaman að sjá þá taka lagið saman, voru eins miklar andstæður og hugsast getur, Sinatra með sín bláu augu í svíngfíling í Las Vegas en Biggie með sín 150 kíló í krakkfíling í Brooklyn. Maður veltir því svo fyrir sér hvernig það mundi hljóma ef einhver taki að sér að splæsa saman samsvarandi tónlistarmenn hér heima, Geir Ólafs við Dóra DNA. Væri forvitnilegt að heyra það.



Notorious B.I.G. & Frank Sinatra - A Day In A Life Of A Fool



Ég hef lengi haldið upp á hinn kanadíska Buck 65 sem hefur verið einn af afkastamestu tónlistarmönnum síðustu ára. Hann hefur reyndar verið að færa sig smátt og smátt í átt frá hip hopi eins og platan hans Secret House Against The World frá í fyrra bar merki. Lagið Pants On Fire kom fyrst út á hinni stórgóðu Man Overboard en var síðan endurútgefið í breyttri mynd á This Right Here Is Buck 65 sem kom út á síðasta ári.



Buck 65 - Pants On Fire (af Man Overboard)
Buck 65 - Pants On Fire (af This Right Here Is Buck 65)



Svo ætla ég að klára rappið í bili með goðsagnakenndu lagi (allavega í minni æsku). Ég átti fyrri hlutann af þessu lagi á kassettu þegar ég var 14 ára og man að þetta var mjög eftirsótt lag á þessum tíma. Það áttu allir í mínum gamla heimabæ, Borgarnesi, þetta lag kóperað af sama originalnum þannig að það átti enginn allt lagið í heild sinni. Maður gat rakið feril lagsins langt, langt aftur í tímann og það var stór hluti þess að þetta lag öðlaðist þann sess sem það skipar enn þann dag í dag meðal gamalla rappaðdáenda í Borgarnesi. Þegar ég hlusta á þetta lag þá fæ ég þvílíkan nostalgíuhroll og læt mig dreyma um gamla vasadiskóið og mixteipin...


Boogiemonsters - Mark Of The Beast



Leyfi svo að fljóta með moshi moshi bandinu Best Fwends sem eru tveir geðsjúkir félagar, frá Texas af öllum stöðum, sem spila að eigin sögn þroskaheft anti-pop. Ég veit ekki um betri skilgreiningu á tónlistinni en ég veit að hún er snarbiluð og er meira hressandi í morgunsárið heldur en tvöfaldur espresso. Hérna er eitt hressandi hryðjuverk frá þeim.



Best Fwends - Ultimate Teem

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home