fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Eitt lag í dag

Stutt og laggott. Overnight eftir hinn kanadíska Gonzales. Þetta lag er af plötunni Solo Piano sem inniheldur eins og nafnið gefur til kynna, eingöngu píanóleik Gonzales. Áður hefur hann gert þrjár hip hop breiðskífur, pródúserað og starfað með Peaches, Beck o.fl. Brilljant lag.



Gonzales - Overnight

föstudagur, febrúar 17, 2006

Lólítan Jane Birkin

Það þekkja allir stunurnar frá einni af mörgum lólítum Serge Gainsbourg, Jane Birkin úr laginu Je T'Aime...Moi Non Plus. Það var ekki eina lagið sem hún söng með honum en seiðandi rödd hennar rataði inn á slatta af lögum eftir Gainsbourg. Oft hvíslar hún þau nánast sem fer vel við lágstemmdar og erótískar ballöður franska stórreykingamannsins og sérvitringsins. Hérna eru nokkur af þeim, þar á meðal besta lag Serge Gainsbourg að mínu mati, Ballade De Melody Nelson.



Serge Gainsbourg & Jane Birkin - Ballade De Melody Nelson
Serge Gainsbourg & Jane Birkin - Jane Dans La Nuit
Serge Gainsbourg & Jane Birkin - La Chanson de Slogan
Serge Gainsbourg & Jane Birkin - Yesterday yes a day

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Jay Dee - 1974 - 2006

Þá er einn virtasti taktsmiður hip hops fallinn frá. Jay Dee (eða J-Dilla) lést á föstudaginn aðeins 32 ára. Nei, hann var ekki skotinn eða lést úr ofneyslu heldur hafði hann glímt við nýrnasjúkdóm og er það talið vera banamein hans. Hann var dáður og dýrkaður meðal taktsmiða sem töldu hann einn þann allra besta. Taktar hans einkenndust helst af djössuðum blæ og þungum bassa. A Tribe Called Quest, De La Soul, Pharcyde, Common, Busta Rhymes eru meðal þeirra sem hafa notið krafta hans, svo var hann einnig um tíma í sveitinni Slum Village. Síðustu árin starfaði hann svo m.a. með hinum hæfileikaríka Madlib undir nafninu Jaylib. Lagið The Red er af plötunni Championsound sem Jaylib gerðu árið 2003. Madlib og Quasimoto alter egóið hans sjá um rappið í laginu.



Jaylib - The Red

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Hinn þýski Günther

Günther Kaufmann er ekki bara stórkostlegur leikari heldur er hann einnig gæddur íðilfagurri rödd svo ekki sé minnst á laglegu mottuna sem hann ber stoltur. Þrátt fyrir þessa mannkosti þá hefur hann verið nokkuð óheppinn og var í nóvember 2002 dæmdur óréttilega í 15 ára fangelsi fyrir morð á endurskoðandanum sínum. En réttlætið sigrar alltaf á endanum og Günther fékk frelsi árið 2003. Í réttarhöldunum 2002 var hann bæði sakborningur og sönnunargagn A, þ.e. morðvopnið. Þegar hann svaraði fyrir það þá féllu þessi fleygu orð: "I simply fell on him, I didn't mean to kill him. All of a sudden he was just no longer moving." Já, svo einfalt var það. Síðast var vitað af Günther í Bremen að taka upp Frank Sinatra og Dean Martin slagara. Lagið Our Love er hins vegar frá ca. 1970 og söngurinn minnir þó nokkuð á Jim Morrison... já Jim Morrison.



Günther Kaufmann - Our Love

mánudagur, febrúar 06, 2006

Allir að dansa

Ég hef nú ekki heyrt neitt að ráði til dönsku söngkonunnar Gry Bagøien en hún hefur starfað með F.M. Einheit sem er úr þýsku iðnaðarsveitinni Einstürzende Neubauten. Eitt af lögunum sem þau hafa gert er lagið Princess Crocodile af plötunni Public Recording. Það er skemmtilegt ragtime sampl notað í laginu sem gæti vel sómað sér í Woody Allen kvikmynd og kæruleysislegur söngur og fallegur raddblær Gry smellpassar við taktinn. Lagið er allavega ekki á leiðinni út úr playlistanum hjá mér á næstunni enda einkar hressandi í vikubyrjun.



Gry (w. FM Einheit) - Princess Crocodile



Svo fyrir þá sem nota Firefox vafrann þá mæli ég eindregið með Foxytunes viðbótinni sem gerir manni kleift að stjórna iTunes í Firefox glugganum.