þriðjudagur, apríl 25, 2006

Sly Stone

Fönkmeistarinn Sly Stone hefur átt skrautlega ævi og ferillinn sveiflast upp og niður allt eftir hversu mikið kókaín hann hafði milli handanna en það var yfirleitt nóg til að gera Rick James stoltan. Hann ásamt semífjölskyldusveitinni Sly & The Family Stone náði fönkinu upp í nýjar hæðir, voru með fyrstu sveitunum til að vera með pólitískan áróður í lögum sínum og voru frumkvöðlar í að diskóvæða fönkið með laginu Family Affair.

Eftir farsælan feril á síðustu árum sjöunda áratugarins og fyrrihluta þess áttunda þá hætti Sly & The Family Stone '75 og Sly Stone reyndi fyrir sér einn síns liðs en náði ekki sömu hæðum og hljómsveitin hafði náð. Lítið sem ekkert heyrðist frá Sly á níunda og tíunda áratugnum. Hann átti tvö misheppnuð kombökk '83 og ´87 og var frægari fyrir kókaínotkun og handtökur en fyrir tónlist sína. Þegar Sly & The Family Stone voru svo heiðruð í Rock & Roll Hall of Fame þá fannst Sly kallinn í einhverju gettóathvarfi ekki gerandi góða hluti. Fékk svo samning '95 en beilaði á honum en Sly og hljómsveit komu loks aftur saman á síðastliðinni Grammyhátíð og Sly var í feiknastuði.

En ég fann gamalt videó af Sly í viðtalsþætti árið 1970 og þar er hann vægast sagt vel gíraður og skemmtilega dressaður að vanda.Sly & The Family Stone - Everybody Is a Star
Sly & The Family Stone - If You Want Me To Stay

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Gorillaz & Ghostigital

Ein af ástæðunum fyrir því að ég byrjaði með þetta blogg var að ég var oft ósammála öðrum íslenskum mp3 bloggum og fannst mörg hver ansi einsleit í viðhorfum sínum. Oft að pósta sömu lögum og erlendar síður, hæpa sömu bönd og pitchfork o.s.frv. Ég trúi því að fólk vilji líka fá að heyra eitthvað gamalt sem það hefur ekki heyrt áður og tónlistarstefnur aðrar en eru ríkjandi í dag. Þó eru margir sem eru að grafa upp áhugavert stöff sem maður hefur ekki heyrt minnst á og maður tekur ástfóstri við.

Eitt af því sem til dæmis var áberandi eftir Hættið! tónleikana í byrjun árs var samróma álit fólks um að Ghostigital hefði verið óþolandi og leiðinlegasta bandið. Ok, ég er kannski ekki alveg hlutlaus en ég hef alltaf verið heillaður af tónlist þeirra Einars Arnar og Curvers hvort sem það er Ghostigital, Purrkur Pillnikk eða Brim. En mér fannst þeir ásamt Dr. Spock bera af það kvöld. Damien Rice var boring, Magga Stína líka, Sigur Rós eins og við var að búast, múm voru góð, Rass voru hressir, Ham undir væntingum og Egó voru klisjulegir að vanda.

Það sem stóð uppúr hins vegar fannst mér vera flutningur Damons Albarn og Ghostigital á þá nýsömdu lagi, Aluminium, þar sem álversframkvæmdum var mótmælt harðlega. Í því lagi skein stjarna Hrafnkels Flóka (Kaktusar) og Gísla Galdurs hvað hæst en sá fyrrnefndi lék einfalt og fallegt trompetsóló og Galdurinn lék á plötuspilarann af einstakri snilld. Ég var því sérlega svekktur að hafa ekki fundið þetta lag neins staðar nema einhvern 30 sekúndna bút í frekar slökum gæðum. En á nýjustu smáskífu Gorillaz má finna lagið Stop The Dams sem byggir stórlega á Aluminium. Eitthvað hefur lagið verið fínpússað og einfaldað en Kaktus fær að blása í saxófóninn og Einar Örn hugsar upphátt sína súrrealísku texta. Það eru tvær góðar ástæður fyrir því að ná í lagið og hlusta á það oftar en einu sinni eða tvisvar.

Ghostigital ásamt Damon Albarn - Aluminium (30 sekúndna bútur live)

Gorillaz ásamt Ghostigital - Stop The Dams

laugardagur, apríl 15, 2006

Páskastuð

Ég fann tvær skrár í itunes sem tengjast föstudaginum langa eða páskunum. Bill Hicks og Unun. Bill Hicks veltir fyrir sér hvernig við fögnum páskunum. Heiða syngur hins vegar um stelpu sem er að bíða eftir deitinu sínu sem mætir ekki og brennir matinn sem fer til himna. Unun var tilraun Smekkleysu til að gera súperpoppgrúppu og tókst vel þó að meiktilraunir í útlöndum hafi ekki verið farsælar. En ég man Æ. Ég man hvað Lög Unga Fólsins (ekki Fólksins, olli mér eitt sinn heilabrotum) var skemmtilegt og fékk að rúlla oft í spilaranum. Frábær poppplata og sögulega vanmetin.

Bill Hicks - Easter
Unun - Föstudagurinn Langi

Blindsker í sjónvarpinu um daginn. Líklega versta heimildarmynd sem ég hef séð. Bubbi að segja sögur af sér og óskiljanleg leikin myndbrot. Svo veit ég ekki hvað þessi fréttainnslög með Boga Ágústs og félögum áttu að þýða. Bara Bubbi að segja dópsögur og hvað hann var mikill töffari. Myndin byggð á hugmynd Óla Palla. Er það skynsamt? Eins og að gera heimildarmynd um Davíð Odds sem byggir á hugmynd Hannesar Hólmsteins eins og ég heyrði það svo skemmtilega orðað um daginn. Ekkert lag fylgir þessu innslagi.

Til að fullkomna þennan úr einu í allt annað póst þá set ég eitt lag úr allt annarri átt með. Sjaldgæft lag með The Fall. Ekki týpískur Mark E. Smith en gott er lagið. Á rólegum nótum. Gleðilega páska.


The Fall - Arid Al's Dream

sunnudagur, apríl 09, 2006

Súkkulaði Elvis

Í þynnkunni er jafnan gott að setja þetta lag á repeat. Hreinn unaður af lagi.


Tosca - Chocolate Elvis

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Mammút

Platan loksins komin út hjá Mammút eftir langa bið. Fantagóð en í sumum lögum er fulláberandi hvaðan áhrifin koma. Nefni sem dæmi Sonic Youth áhrifin í Faðmi (kannski nærtækara að nefna Curver af plötunni Haf) og Blonde Redhead taktarnir í lokalaginu Mammút. Síðastnefnda lagið finnst mér skara langt framúr öðrum lögum á disknum og ég mundi vilja sjá hljómsveitina halda áfram á þessari braut. Lagið er rólegra en önnur en hefur yfir sér yfirgengilegan sjarma. Skil ekki alveg af hverju þau eru að veðja á Þorkel sem helsta slagarann af plötunni þar sem mér finnst það engan veginn það besta á disknum, hvorki textalega né tónlistarlega séð.

En það sem gerir hljómsveitina einstaka og í sérflokk er einstakur söngur Katrínar Mogensen og tussusvalur bassaleikur Guðrúnar Heiðar. Ég fór á útgáfutónleikana hjá þeim á miðvikudaginn sem voru reyndar aðeins undir væntingum mínum sem voru reyndar háar. Helst að þau mættu taka sig aðeins minna alvarlega á sviði og ekki vera flýta sér svona mikið í gegnum prógrammið. Katrín var eiginlega sú eina sem minnti mann á að maður væri á tónleikum en ekki bara að horfa á þau á æfingu. En kraftinn vantaði samt ekki. Fokkit, þessi póstur er orðinn alltof langur. Platan er frábær, tónlistin góð, umslagið flott og kaupið hana. Hér er lagið Mammút.


Mammút - Mammút