föstudagur, mars 31, 2006

Reggí - ekki bara Bob Marley

Bob Marley platan Legend er líklega til á flestum heimilum og þó flestir fíli Marley þá eru sárafáir sem kafa dýpra í reggíið og finnst það óþarfi þar sem Legend platan dugar þeim ágætlega. En Bob Marley er bara toppurinn á ísjakanum og ósanngjarnt að margir reggítónlistarmenn fái ekki þá viðurkenningu sem þeir eiga skilið. Tékkið á Lee Perry, Robbie & Sly, Max Romeo, John Holt, Horace Andy, Gladiators, King Tubby, Damien Marley eða þó það væri ekki nema fokkin UB40 þá allavega ekki láta reggíið stoppa eftir að Jammin' klárast á Legend disknum. Það er svo miklu meira gott til. Ímyndið ykkur ef allir ættu bara einn disk fyrir hverja stefnu, Doolittle fyrir rokkið, Doggystyle fyrir rappið, Legend fyrir reggíið, Experience fyrir danstónlistina o.s.frv. Fáránlegt. Hérna eru nokkrir reggítónlistarmenn og tóndæmi frá þeim. Tékkið á þeim.

Fyrst er Brooklynsveitin Paragons með lagið Got To Get Away eftir snillinginn John Holt en hann var um tíma í Paragons. Flestir þekkja lagið í búningi Massive Attack en þá söng Horace Andy lagið og þá hét það Man Next Door.


Paragons - Got To Get Away

Ef maður er á annað borð að tala um meistarann Horace Andy þá er nauðsynlegt að heiðra hann með því að pósta einu af mörgum frábærum lögum sem hann hefur sungið. Ein flottasta og sálarfyllsta rödd sem maður heyrir. Massive Attack vita það og láta hann syngja á hverri plötu hjá sér.


Horace Andy - Do You Love My Music

Max Romeo þekkja flestir enda söng hann hið margsamplaða lag I Chase The Devil (Out of Space, Encore..). Hér syngur hann og tilbiður hið margrómaða jamaíska marijúana eins og rastafara er siður.


Max Romeo - My Jamaican Collie

miðvikudagur, mars 29, 2006

Sjónvarp tónvarp

Búinn að vera í veikindum í eina og hálfa viku og á þeim tíma hef ég horft á óæskilega mikið á misgáfulega sjónvarpsþætti. Mest rusl en sá fyrstu 2 þættina úr 5. seríu Sopranos. Flúff flúff flúff. Þessir þættir eru of svalir og tónlistin sem er í þeim maður. Usss. Þessir þættir eru svaðallegir og í fyrsta þættinum var sérstaklega eitt lag sem prýddi magnað atriði sem inniheldur m.a. snöru og svo Tony að elda pasta. Lagið er eftir Artie Shaw sem var upp á sitt besta í bigband senunni í kringum 1940.

Svo var lag í byrjun þáttarins sem var notað til að rifja upp síðustu seríu. Í því lagi les William Burroughs texta upp yfir lágstemmda tóna. Lagið er eftir Material sem er hliðarverkefni Bill Laswell sem hefur komið víða við á sínum ferli. Líklega þekktastur fyrir að semja Rockit ásamt Herbie Hancock. Reyndar er þessi útgáfa sem ég pósta með upplestri með Laswell sjálfum en það kemur ekki að sök.


Artie Shaw - Comes Love


Material - The Seven Souls

föstudagur, mars 24, 2006

Silvía Nótt - myndband

Lítið getað póstað þessa vikuna vegna veikinda en þið getið nálgast Silvíu myndbandið hér.

laugardagur, mars 18, 2006

Madlib

Ef þú hefur minnsta áhuga á hiphopi þá er nauðsynlegt að þekkja til Madlib. Madlib er pródúser, DJ, rappari og starfrækir nokkur hliðarverkefni undir ýmsum nöfnum. Til dæmis er hann helíumraddaði rapparinn Quasimoto, annar hluti tvíeykjanna Madvillain og Jaylib og einsmanns djasshljómsveitin Yesterday's New Quintet. Einnig var hann í hljómsveitinni Lootpack í byrjun tíunda áratugarins. Það er óhætt að búast við miklu frá Madlib en hann er líklega sá allra fjölhæfasti tónlistarmaður hiphopsins ásamt MF Doom. Hann er líka duglegari en flestir í útgáfu án þess þó að það komi niður á gæðum. Það líður ekki það ár án þess að hann gefi út eða komi nálægt að minnsta kosti 2 til 3 plötum. Á þriðjudaginn kemur út platan Beat Konducta Vol. 2: Movie Scenes og er lagið Understanding (Comprehension) er af henni.


Madlib - Understanding (Comprehension)

Madlib - Conducted Rhythms
Quasimoto - Closer (ft. Madvillain)

mánudagur, mars 13, 2006

The Black Heart Procession

Hef verið að hlusta á rímixplötuna Indie Rock Blues þar sem hiphoppródúserinn Joe Beats, úr hinni skemmtilegu Non-Prophets, hefur tekið nokkra indírokkslagara og slitið þá sundur og endurraðað þeim upp og sett takta undir. Það er ekki bara bætt við töktum undir heldur er hann eiginlega að endurskapa lögin. Þetta er allavega skotheld plata og með betri mixplötum sem ég hef heyrt. Það er til dæmis magnað hvernig hann meðhöndlar lagið When We Reach The Hill með The Black Heart Procession. Lagið rak mig til að kynna mér þessa hljómsveit og ég féll fyrir því sem ég náði að grafa upp með henni. Ætla að skella inn laginu Waterfront (The Sinking Road) sem er hádramatískt og kalt póstrokk af plötunni 2. Ekkert nýtt á ferð en skemmtilega sorgleg stemming sem er fínt á mánudegi.


The Black Heart Procession - When We Reach The Hill (Joe Beats Remix)
The Black Heart Procession - Waterfront (The Sinking Road)

miðvikudagur, mars 08, 2006

Massíft frá Bristol

Það er von á best of frá Massive Attack og dvd diskur með myndböndum sveitarinnar á að fylgja með. Eitt nýtt lag á að fá að slæðast með og er komið í spilun. Það heitir Live with me og er sungið af Terry Callier sem syngur af mikilli yfirvegun og tilfinningu. Það er eins og hann hafi alltaf sungið með Massive Attack, djössuð rödd hans fellur vel að mjúkum takti lagsins. Mér fannst síðasta plata 100th Window engan vegin nógu góð og kvikmyndatónlistin fyrir Danny the Dog var heldur ekki að gera neitt fyrir mig. Ég held að lagið eigi eftir að sóma sér vel meðal bestu laga sveitarinnar enda vex það með hverri hlustun og á alveg heima við hlið Unfinished Sympathy. Myndbandið, eftir Jonathan Glazer, er líka stórgott og svipar til myndbandsins fyrir Unfinished Sympathy.


Massive Attack - Live with me (ft. Terry Callier)

sunnudagur, mars 05, 2006

How abstract can you get

Búinn að vera að hlusta á Ghostigital plötuna In Cod We Trust síðustu viku. Mikill meirihluti fólks sem heyrir í þeim þolir þá og Einar Örn einfaldlega ekki eins og til dæmis flestir sem fóru á Hættið! tónleikana en þeir sem fíla þá á annað borð og gefa þeim séns fatta snilldina. Mér finnst Einar Örn og Curver vera mun samstilltari og skemmtilegri en á fyrstu plötunni auk þess sem Gísli Galdur setur sterkan svip á plötuna með skratsi sem fellur vel að lögunum. Platan er hiphopkenndari og aðgengilegri þó hún sé alls ekki útvarpsvæn heldur erfið og tilraunakennd. Lögin hafa mun reglubundnari uppbyggingu en á fyrri plötunni og svo kannski er maður orðinn vanari og hefur meira þol fyrir tilraunakenndum hljóðum og marglayeruðum töktum Ghostigital. En allavega finnst mér platan stórskemmtileg og hún er ekki á leiðinni úr spilaranum strax.


Ghostigital - In Cod We Trust (ásamt Mark E. Smith)(Vinsamlegast kaupið plötuna)

fimmtudagur, mars 02, 2006

Þýskt gleðidanspopp

Hljómsveitin Stereo Total er búsett í Berlín og en meðlimirnir eru frá Þýskalandi og Frakklandi. Sú blanda er að virka vel en þeir voru að senda frá sér plötuna Discotheque. Platan vísar í allar áttir og blandar saman hip hop, dub, 60's poppi, diskói, rokki svo eitthvað sé nefnt. Þeir taka nokkur tökulög eftir stórstjörnur á borð við Lou Reed, Rolling Stones og Serge Gainsbourg og setja í dansgallann. Ég ætla að henda inn laginu Bad News From The Stars sem Gainsbourg gerði upphaflega sem reggílag en Stereo Total eru búnir að hressa aðeins upp á það.
Leyfi orginalnum að fljóta með enda klikkar Gainsbourg aldrei.Stereo Total - Bad News From The Stars
Serge Gainsbourg - Bad News From The Stars


Svo í lokin ætla ég að skjóta inn mynd þar sem búið er að kortleggja tónlistarstefnur og tónlistarmenn með því að setja það inn á kort af undergroundkerfinu í London. Nördalegt en athyglisvert að kíkja á þetta, ekkert verri afþreying en hver önnur.

London Underground Map (pdf skjal)